HFRingar sigurreifir um helgina

Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) hélt um síðustu helgi keppni í aðstöðu sinni í gömlu sundhöllinni í Keflavík og voru skráðir til leiks tuttugu og einn keppandi frá sex félögum. Keppnislið HFR vann sex af sjö viðureignum sínum og er óhætt að segja að það sé sigursælasta félag landsins það sem af er keppnistímabilinu.

Íþróttamaður Sandgerðis, Andri Már Elvarsson (13 ára), keppti tvisvar sama kvöldið og hafði yfirburðasigur í bæði skiptin gegn eldri og þyngri andstæðingum frá Hnefaleikafélagi Akraness (HAK) og Hnefaleikafélaginu ÆSIR (HFÆ). Andstæðingur Ástþórs Sindra Baldurssonar (13 ára) mætti ekki í hringinn og var því sigurinn sjálfgefinn, en þegar ljóst varð að slíkt hið sama myndi henda keppanda frá HFÆ hljóp Ástþór í skarðið þrátt fyrir mikinn aldurs- og þyngdarmun. Þegar yfir lauk voru þeir jafnir á stigum og réðist sigur Ástþórs að lokum á því að hann hafði sýnt betri vörn.

Pétur „Smiley“ Ásgeirsson var í essinu sínu í fyrsta bardaga eftir hlé og var bardaginn stoppaður í þriðju lotu eftir að þung skrokkhögg Péturs höfðu tekið allt púðrið úr andstæðingi hans, Arnóri Má Grímssyni (HAK).

Keppnismaðurinn mikli, Vikar Karl Sigurjónsson, reyndi í annað sinn að vinna bug á þungavigtarmanninum Gunnari Kolla Kristinssyni (HFÆ) en átti ekki erindi sem erfiði. Þótt Vikar hafi barist mun betur en í fyrri rimmu þeirra félaga í september reyndist erfitt að yfirstíga mikinn hæðar- og þyngdarmun auk þess sem Gunnar Kolli barðist einnig betur en síðast. Að fjórum lotum loknum var úrskurðurinn einróma gestinum í vil.

Tveir efnilegustu hnefaleikamenn landsins, þeir Hafsteinn Smári Óskarsson (HFR) og Adam Freyr Daðason frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar (HFH), mættust í annað sinn á þrem vikum í hnífjöfnum bardaga. Þessir piltar fara með hanska eins og Paganini fór með Stradivaríus fiðlu og var hrein unun fyrir sanna hnefaleikaunnendur að horfa á þá leika listir sínar. Adam lét Hafstein ekki koma sér á óvart í þetta sinn og barðist mjög skynsamlega og tímasetti gagnsóknir sínar vel. Hafsteinn skoraði hins vegar reglulegar og vann það honum að lokum 2-1 sigur.

Í lokaviðureign kvöldsins mætti Daníel Þórðarson írska skriðdrekanum Kieran Treacy frá Bracken BC og varð útkoman sannarlega eftirminnileg. Fyrsta lota var nokkuð jöfn og náði Írinn oft að klemma Daníel á reipunum og velgja honum undir uggum með skrokkhöggahríðum. Í annarri lotu þreif Keflvíkingurinn knái taumana úr höndum Treacy og var við stjórnvölinn það sem eftir var. Hann snéri sér snarlega af reipunum í hvert skipti sem hætta var á því að Írinn klófesti hann og fór að smellhitta æ oftar með hægra upphöggi. Treacy hætti þó aldrei að pressa og var sannarlega ekki kominn til þess að leggja árar í bát þótt að á brattann væri að sækja. Hann skoraði áfram vel með skrokkhöggum og var Daníel orðinn mjög móður í fjórðu og síðustu lotu þótt hann héldi áfram að refsa andstæðing sínum í hvert skipti sem hann dirfðist að slá frá sér. Allir dómarar voru sammála um úrslitin og Daníel stóð uppi sem sigurvegari jafnframt því að hljóta verðlaun sem besti hnefaleikamaður kvöldsins.

Þetta var síðasta hnefaleikamótið fyrir áramót en ætlunin er að bjóða heim stóru dönsku liði í byrjun febrúar í risakeppni í Reykjanesbæ.

HFR með sex gull í Hafnarfirði

HFR

Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) hélt uppteknum hætti sem af er keppnistímabilinu og sópaði að sér gullverðlaunum á móti í Hafnarfirði um síðustu helgi. Mótið hélt Hnefaleikafélagið ÆSIR (HFÆ) og var tuttugu og einn keppandi skráður til leiks, þar af sex frá HFR.

Þeir félagar Ástþór Sindri Baldursson og Andri Már Elvarsson — sem báðir eru þrettán ára gamlir — kepptu í diplomaflokki og unnu sínar viðureignir örugglega. Það vakti athygli að Ástþór Sindri keppti tvisvar sinnum um kvöldið og Andri Már var valinn besti diplomaboxari keppninnar. Báðir sigruðu þeir andstæðinga sem voru árinu eldri og fjórum þyngdarflokkum ofar.

Stuðboltinn Pétur Ásgeirsson hafði betur í æsispennandi slag gegn Elíasi Shamsudin (HFÆ) og Eiður Örn Guðjónsson vann yfirburðasigur á Arnari Frey Gunnarssyni frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar (HFH) eftir örðuga fyrstu lotu.

Þrátt fyrir að hafa ekki gert alveg nóg til að hljóta sigur sýndi Björn Snævar Björnsson frábæra frammistöðu gegn ríkjandi Íslandsmeistara í léttveltivigt og einum reyndasta keppanda landsins, Gunnari Óla Guðjónssyni frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur. Það mátti vart tæpara standa þegar yfir lauk og var Gunnar Óli heppinn að loturnar voru aðeins þrjár því Birni óx ásmegin eftir því sem á leið.

Í lokaviðureign kvöldsins mætti svo séníið Hafsteinn Smári Óskarsson Adami Frey Daðasyni (HFH) í sannkallaðri flugeldasýningu. Þetta eru tveir af efnilegustu hnefaleikamönnum landsins en það var yfirburðarframmistaða Njarðvíkingsins knáa í annarri lotu annars jafnrar viðureignar sem réði úrslitum. Hafsteinn Smári — sem vann gull á fjölþjóðlegu móti í Danmörku í síðasta mánuði — var svo valinn besti boxari kvöldsins.

HFR í víking til Danmerkur!

Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) tók um síðustu helgi þátt í HSK BOX CUP 2008 í Danmörku. Mótið hefur verið haldið í bænum Hillerød árlega síðan 1985 og er það fjölsóttasta í Norður-Evrópu — í ár tóku þátt 320 hnefaleikamenn frá 7 þjóðum í 162 viðureignum. Frá HFR fóru þau Andri Már Elvarsson, Ásdís Rósa Gunnarsdóttir, Ástþór Sindri Baldursson, Björn Snævar Björnsson, Eiður Örn Guðjónsson, Hafsteinn Smári Óskarsson og Pétur Ásgeirsson ásamt þjálfurum og liðstjórum, en einnig fór með liðinu Gunnar Kolli Kristinsson frá Hnefaleikafélaginu ÆSIR. Þau Andri Már, Ásdís Rósa, Björn Snævar, Ástþór Sindri og Eiður Örn unnu öll til silfurverðlauna og Hafsteinn Smári náði þeim frábæra árangri að vinna gull í sínum flokki með sigrum á þeim Thomas MacBride frá Englandi og Anders Andersen frá Danmörku.

Daði Ástþórsson, yfirþjálfari HFR, er ánægður með mótið en hann var með í för þegar gömlu kempurnar Skúli Steinn Vilbergsson og Þórður Sævarsson tóku þátt í því árið 2002 og kepptu fyrstir Íslendinga opinberlega í hnefaleikum í tæplega hálfa öld. Á sex árum hefur margt vatn runnið til sjávar og er það ákveðin staðfesting á miklu og góðu grasrótarstarfi hjá félaginu að snúa aftur til Hillerød með stórt, ungt og sterkt lið og ná slíkum árangri. HFR vill þakka Nesprýði, sem kostaði kaup á búningum félagsins, veittan stuðning.

Mikil gróska er nú í hnefaleikum á Íslandi og verða þrjú mót á dagskránni í nóvember, þar á meðal stórmót gegn Írum í Reykjanesbæ.

Góður árangur hjá HFR um helgina

HFR

Keppnislið HFR stóð sig mjög vel um helgina og vann sigur í fimm af sjö viðureignum. Hér eru úrslitin (sigurvegarar eru feitletraðir):

Diploma
Eyþór Pétursson (HAK) vs Elías Shamsudin (HFÆ)

Diploma
Birkir Ívar Dagnýarson (HAK) vs Ástþór Sindri Baldursson (HFR)

Diploma
Alex Þór Hafþórsson (HAK) vs Pétur Ásgeirsson (HFR)

Diploma
Arnór Már Grímsson (HAK) vs Andri Már Elvarsson (HFR)

Diploma
Anton Freyr Axelsson (HFH) vs Gunnar G. Gray (HFÆ)

Veltivigt 69 kg
Anton Már Bjarnason (HFH) vs Björn Snævar Björnsson (HFH)

Millivigt 75 kg
Kristján Orri Arnarson (HFH) vs Davíð Finnbogason (HR)

Léttþungavigt 81 kg
Matthías B. Arnarson (HFÆ) vs Tom Wolbers (HFR)

Sýningarviðureign
Jonas Andersen (BK Ørnen) vs Daníel Þórðarson (HFR)

Sýningarviðureign
Hafliði H. Hafliðason (HFÆ) vs Jakub Rzasa (HFÆ)
Yfirþungavigt +91 kg
Gunnar A. Gunnlaugsson (HFH) vs Eiður Örn Guðjónsson (HFR)

Þungavigt 91 kg
Gunnar Kolbeinn Kristinsson (HFÆ) vs Davíð Rafn Björgvinsson (HR)

Léttveltivigt 64 kg
Gunnar Þór Þórsson (HR) vs Mikkel Gregersen (Gladsaxe BK)

Ungir og aldnir boxuðu á Ljósanótt

Björn stóð sig vel í frumraun sinni í hringnum
Björn stóð sig vel í frumraun sinni í hringnum

Hugmyndin hafði verið að fá írskt lið í heimsókn á Ljósanótt en það gekk því miður ekki eftir vegna ófyrirsjáanlegra vandamála hjá Írunum. Því var spýtt í lófana og haldið skemmtilegt kvöld þar sem þemað var „ungur nemur, gamall temur.“ Gömlu kempurnar Þórður „Doddy“ Sævarsson, Daníel Þórðarson og Skúli Steinn Vilbergsson settu upp hanskana á ný og gáfu þeim Hafsteini Smára Óskarssyni, Pétri Ásgeirssyni og Andra Má Elvarssyni sannkallaða eldskírn í hringnum. Þessi ungu djarfmenni voru hvergi bangin og gáfu ekki þumlung eftir. Þegar andstæðingur Baldurs F. Arnarsonar (HFH) forfallaðist ákvað Doddy svo að nýta ferðina almennilega og kenna Baldri sitthvað um hin sælu vísindi. Baldur er tæplega helmingi þyngri en Doddy og tveimur höfuðlengdum stærri og vakti uppákoman mikla kátínu meðal áhorfenda.

Annars steig Björn Snævar Björnsson úr Garðinum sín fyrstu skref í hnefaleikakeppni gegn Frímanni Frímannssyni og stóð sig með afburðum vel þótt hann mætti sætta sig við tap. Slíkt varð einnig hlutskipti Vikars Karls Sigurjónssonar, sem átti í erfiðleikum með hinn risavaxna Gunnar Kolla Kristinsson (HFÆ). Það var ekki mikið á milli þeirra en Gunnar Kolli var einfaldlega duglegri að slá og skora stig, enda þurfti hann ekki að komast í færi til þess.

Keppnin heppnaðist vel miðað við aðstæður en framvegis verður stefnt að því fá Dani hingað ár hvert á Ljósanótt og það verði fastur liður í dagskrá hátíðarinnar.

Sumaræfingar

HFR

Nú er keppnistímabilinu lokið og við taka sumaræfingatímar. Fastar æfingar verða á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 18:40 – 20:10 og einhverjar aukaæfingar eftir þörfum.

HFRingar keppa á Írlandi

HFR
(v-h) Óskar S. Jónsson, Ásdís R. Gunnarsdóttir, Eiður Ö. Guðjónsson, Andri M. Elvarsson, Daði Ástþórsson, Ástþór S. Baldursson, Elvar Grétarsson, Hafsteinn S. Óskarsson.

Keppnislið HFR var á faraldsfæti um helgina síðustu og mætti Bracken Boxing Club í Balbriggan á Írlandi. Íslensku keppendurnir voru þeir Andri Már Elvarsson, Ástþór Baldursson, Eiður Örn Guðjónsson og Hafsteinn Smári Óskarsson. Með í för voru Daði Ástþórsson þjálfari, Ásdís Rósa Gunnarsdóttir aðstoðarþjálfari og fararstjórarnir Elvar Grétarsson og Óskar S. Jónsson.

Ástþór steig fyrstur í hringinn með nánast yfirnáttúrulegri ró og barðist vel gegn Ryan Bisset í sýningarbardaga í léttbitmýsvigt sem endaði með jafntefli. Bisset var mjög taugastrekktur og sló mikið en hitti lítið. Ástþór, sem er að safna reynslu í sarpinn, tókst hins vegar ekki að slá nóg, þótt hann hafi verið nákvæmari og varðist vel.

Í léttfluguvigtarbardaga gerði Andri Már allt rétt og skoraði vel með gagnhöggum þegar andstæðingurinn, Ronan Prenty, óð inn með höfuðið á undan. Ef hinn hávaxni Prenty kom of nálægt tætti Andri af snarpri fléttu og lét hann finna fyrir því með upphöggum. Þrátt fyrir allt naut Sandgerðingurinn knái enn ekki náðar dómara þrátt fyrir yfirburðarframmistöðu á útivelli tvö ár í röð.

Næstur var það Hafsteinn Smári sem steig á svið gegn Conor Duffy í fjaðurvigt. Hafsteinn, sem er örvhentur, byrjaði illa og hreyfði sig í ranga átt en stóð þó fullkomlega jafnfætis Duffy þegar þeir skiptust á höggum í miðjum hringnum. Eftir fyrstu lotu aðlagaði Hafsteinn fótaburðinn og hafði nokkra yfirburði það sem eftir leið. Írinn var heppinn að sleppa allar þrjár loturnar þótt hann hafi aldrei hætt að reyna. En því miður var það enn írskur dómur og Duffy var dæmdur sigurinn 2-1.

Léttþungavigtarmaðurinn Eiður Örn skaut andstæðing sínum, Trevor, skelk í bringu og gjörsamlega einokaði bardagann frá A til Ö. Trevor kom varla inn höggi og Eiður hamraði ítrekað á honum með sinni snörpu hægri hendi. Andstæðingurinn reyndi ítrekað að pressa Eið út í horn en Eiður snéri vörn í sókn og snéri sér fimlega úr horninu og lét höggin dynja á Trevor. Dómarinn taldi tvisvar yfir íranum sem slapp naumlega úr klónum á Eiði þegar bjallan glumdi í lok 3. lotu. Ekki einu sinni írsku dómararnir gátu neitað honum sigurinn og Eiður fór með sigur af hólmi.

Allt í allt frábær ferð og frábær árangur hjá strákunum.

Frábær Unglingakeppni í Reykjanesbæ

Tómas (HFH) og Ástþór (HFR) takast í hendur eftir góðan leik
Tómas (HFH) og Ástþór (HFR) takast í hendur eftir góðan leik

Það var hörkukeppni um helgina þegar margir af efnilegustu boxurum landsins mættust í keppni í Reykjanesbæ. Þessar ungu og upprennandi stjörnur framtíðarinnar gáfu eldri boxurunum sem kepptu í Íslandsmótinu helgina áður ekkert eftir og sýndu jafnvel enn betri takta ef eitthvað er. Til dæmis má nefna hörkurimmu milli Péturs Ásgeirssonar (HFR) og Adams Freys Daðasonar (HFH) sem var í járnum fram í síðustu lotuna. Tveir suðurnesjamenn, þeir Hafsteinn Smári Óskarsson og Ástþór Baldursson skutu sér aldeilis fram í sviðsljósið með hreint frábærum frammistöðum í sínum viðureignum og eiga örugglega eftir að láta til sín taka á árinu.

Gullkálfur HFR, Andri Már Elvarsson, átti bókstaflega á brattann að sækja þegar hann mætti hinum danska Mikkel Dreyer-Larsen (Ringsted-IF). Andri átti frábært ár í fyrra en hefur þurft að sitja á hillunni undanfarna mánuði vegna andstæðingsleysis. Hann sýndi snilldartakta í fyrstu lotu en dalaði heldur eftir miðja aðra lotu, enda mjög ryðgaður. Daninn nýtti hæðarmuninn ágætlega og sótti grimmt að Andra, sem klóraði í bakkann og tapaði naumlega á stigum. Vonir eru uppi um að fá Dreyer-Larsen aftur til landsins í haust.

Einnig er vert að nefna frammistöðu Daníels (HFH) sem sýndi snilldartakta gegn hinum danska Benjamin Sohrbeck (Ringsted-IF), þótt hann hafi ekki haft sigurinn.

Ég vil þakka öllum þeim sem komu að mótinu – dómurum, þjálfurum, keppendum, aðstandendum og áhorfendum – fyrir frábært kvöld.

Kv. Daði

Úrslit kvöldsins (sigurvegari feitletraður):

Andri Már Elvarsson (HFR) vs Mikkel Dreyer Larsen (Ringsted-IF)

Hafsteinn Smári Óskarsson (HFR) vs Pétur Þór Sævarsson (HR)

Pétur Ásgeirsson (HFR) vs Adam Freyr Daðason (HFH)

Ástþór Sindri Baldursson (HFR) vs Tómas (HFH)

Daníel Ágúst Gautason (HR) vs Birgir Tómasson (HFH)

Daníel (HFH) vs Benjamin Sohrbeck (Ringsted-IF)

Sýningarviðureignir (enda allar með jafntefli)

Arnór (HFR) vs Sigurjón (HFR)

Ólafur (HFR) vs Stefán (HFR)

Hreiðar (HFR) vs Aron (HFR)

Vikar Íslandsmeistari

Þrír keppendur HFR kepptu í úrslitum Íslandsmeistaramótsins í hnefaleikum nú um helgina.

Fyrstur var það Eiður Örn Guðjónsson sem atti kappi við Gunnar A. Gunnlaugsson (HFH) en tapaði naumlega á stigum. Eiður hafði sigrað félaga Gunnars í undanúrslitunum.

Hnefaleikamaður Ársins 2007, Viðar Freyr Viðarsson, sem hefur átt við erfið meiðsli að stríða í vetur mætti til keppni tveimur þyngdarflokkum fyrir ofan sína bestu þyngd. Andstæðingur hans, Jafet Örn Þorsteinsson (HFÆ), var einfaldlega í mun betra formi og mátti Viðar sætta sig við einróma úrskurð dómara andstæðing sínum í vil.

Vikar Karl Sigurjónsson landaði Íslandsmeistaratitli þrátt fyrir að vera kominn á háan aldur í íþróttinni og þurfti að fá sérstaka undanþágu til þess að fá að keppa á mótinu! Hann sigraði Sigurð Eggertsson frá HFH og vann léttþungavigtartitilinn sem hann freistaði þess að vinna fyrir tveimur árum síðan.

Íslandsmeistarar kvöldsins

Fjaðurvigt pilta (57 kg)
Erling Óskar Kristjánsson (HFH)
Léttveltivigt karla (64 kg)
Gunnar Þór Gunnarsson (HR) – hnefaleikamaður kvöldsins
Millivigt karla (75 kg)
Stefán Guðni Stefánsson (HR)
Þungavigt (91 kg)
Gunnar Aðalsteinsson (HFH)
Léttveltivigt (64 kg)
Gunnar Óli Guðjónsson (HR)
Millivigt (75 kg)
Jafet Örn Þorsteinsson (HFÆ)
Léttþungavigt (81 kg)
Vikar Karl Sigurjónsson (HFR)
Þungavigt karla (91 kg)
Lárus Mikael Daníelsson (HFÍ)

Andri sigrar í Hafnarfirði

Andri Máe (v) og Adam Freyr (h)
Andri Már (v) og Adam Freyr (h)

Andri Már Elvarsson sigraði Adam Frey Daðason frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar í æsispennandi viðureign um síðustu helgi. Adam hefur tekið miklum framförum síðan að þeir mættust síðast fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum og veitti Andra mun harðari keppni í þetta sinn. Andri hefur nánast verið ósigrandi frá því að hann setti upp hanskana í fyrsta sinn fyrir tæplega ári síðan.

Boxaðu Þig í Betra Form