Flokkaskipt greinasafn: Myndir

Enn sigrar Hafsteinn Smári

Ásdís Rósa Gunnarsdóttir og Hafsteinn Smári Óskarsson
Ásdís Rósa Gunnarsdóttir og Hafsteinn Smári Óskarsson

Síðasta hnefaleikamót ársins heppnaðist stórkostlega vel. Það var magnað andrúmsloft í Hnefaleikastöðinni í Reykjavík þegar tólf íslenskir boxarar léku listir sínar í hringnum í sex æsispennandi viðureignum.

Fyrstir í hringinn voru þeir félagsbræður Steinar Thors og Sigurjón Arnórsson (Hnefaleikafélagi Reykjavíkur), sem áttust við í sýningarviðureign. Sigurjón hafði betur eftir hressileg átök.

Adam Freyr Daðason (HFH) - Hnefaleikamaður kvöldsins
Adam Freyr Daðason (HFH) - Hnefaleikamaður kvöldsins

Adam Freyr Daðason (Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar) sýndi flotta takta gegn Hinriki R. Helgassyni (Hnefaleikafélaginu Æsir), en sá síðarnefndi átti ekki svar við geysilegri snerpu hafnfirðingsins í þetta sinn og var viðureignin af þeim sökum stöðvuð í annarri lotu. Adam var í lok kvölds valinn hnefaleikamaður kvöldsins.

Þær Ásdís Rósa Gunnarsdóttir og Berglind Frances Aclipen (HFÆ) mættust í þriðja sinn á einum og hálfum mánuði og áttu enn eina hörkurimmuna. Vart mátti á milli sjá en það var Berglind sem naut náðar dómaranna í þetta sinn. Frábær bardagi hjá þessum fræknu hnefaleikakonum.

Í næstu viðureign mættust á ný þeir Baldur Fannar Arnarson (HFH) og Þráinn Erlendsson (HFÆ). Þráinn sótti hart að Baldri í fyrstu lotu, en það fór heldur að halla undir fæti hjá honum er dró á leikinn og úthalds var þörf. Baldur var hvergi banginn, heldur veðraði hann storminn og þegar komið var fram í fjórðu og síðustu lotu var hann farinn að velgja Þráni all verulega undir uggum. Frábær frammistaða hjá Baldri, sem aðeins sextán ára gamall sigraði fullvaxta karlmann í annað sinn!

HAFSTEINN SEIGUR

Það er farið að líta út fyrir að það séu þrír hlutir í lífinu sem klikka aldrei: dauðinn, skattar og Hafsteinn Smári Óskarsson! Í kvöld stóð njarðvíkingurinn með náðargáfuna frammi fyrir erfiðusta áskorun sinni til þessa, hinum grjótharða Kristjáni Orra Arnarssyni (HFH). Þrátt fyrir að á þeim væri um 10 kg þyngdarmunur og að Kristján Orri sé höfðinu hærri gaf Hafsteinn sig hvergi þegar hafnfirðingurinn hrausti vildi njóta stærðar sinnar í fyrstu lotu, sem var nokkuð jöfn framan af. Þegar það var ljóst að Hafsteini yrði ekki bifað tók hann stjórnvölinn og hélt honum allt til loka. Kristján Orri hætti þó aldrei að reyna og var þetta vægast sagt flottur slagur hjá þeim piltum! Hafsteinn hefur nú á árinu sigrað alla keppinauta í sínum aldursflokki frá léttvigt (60 kg) upp í millivigt (75 kg) og fer taplaus inn í það nýja.

Lokaviðureigninni má helst lýsa sem skriðdrekahernaði! Vignir Ingi Bjarnason (HFÆ) mætti þá Alexei Pál Siggeirsson (HFÆ), en sá fyrrnefndi las kröftugar en tilbreytingalitlar höggadrífur félagsbróðurs síns auðveldlega og refsaði honum grimmilega með þungum höggum. Það var ekki liðið langt á aðra lotu þegar útséð var um úrslitin og lauk bardaganum svo með því að handklæðinu var hent inn eftir að Alexei var sleginn í gólfið með bylmingshöggi í þriðju lotu.

Hér eru úrslitin (sigurvegarar eru feitletraðir):

Steinar Thors (HR) vs Sigurjón Arnórsson (HR)
Adam Freyr Daðason (HFH) vs Hinrik R. Helgason (HFÆ) – besti boxarinn
Ásdís Rósa Gunnarsdóttir (HFR) vs Berglind Frances Aclipen (HFÆ)
Baldur Fannar Arnarson (HFH) vs Þráinn Erlendsson (HFÆ)
Hafsteinn Smári Óskarsson
(HFR) vs Kristján Orri Arnarsson (HFH)
Vignir Ingi Bjarnason
(HFÆ) vs Alexei Páll Siggeirsson (HFÆ)

Árni Ísaksson keppir í „OMMAC 3: Only The Brave“ um helgina

Árni Ísaksson
Árni Ísaksson

Árni Ísaksson, Íslandsmeistari í léttþungavigt, á um helgina titilbardaga í stærstu MMA-keppninni í Evrópu… OMMAC 3: Only The Brave. Andstæðingur Árna er hinn geysiöflugi Luis „Besouro“ Dutre Jr. frá Brasilíu og munu þeir mætast í 77 kg flokki. Þetta er fyrsti MMA bardagi Árna síðan 2006.

Hnefaleikafélag Reykjaness óskar Árna góðs gengis og við gerum fastlega ráð fyrir að hann hirði titilinn með sterkum hug og gleði í hjartanu!

Vel heppnuð ferð til Danmerkur

Holbæk 2009
Íslenska liðið

Íslensku hnefaleikafélögin ferðust í vikunni til Danmerkur með sjö keppendur á árlegt galakvöld Team Bredahl í Holbæk. Það voru þau Adam Freyr Daðason, Ásdís Rósa Gunnarsdóttir, Baldur Fannar Arnarson, Daníel Hauksson, Gunnar Kolbeinn Kristinsson, Gunnar Þór Þórsson og Kristján Orri Arnarsson sem sóttu út fyrir landsteinana ásamt Bjarka Bragasyni, Daða Ástþórssyni og Fabio Quaradeghini þjálfurum.

Þeir Baldur og Adam unnu flotta sigra á andstæðingum sínum og það sama má segja um Daníel þótt dómaranir hafi ekki verið því sammála. Ásdís fór fjórar lotur í fyrsta skipti, mætti reyndari og stærri andstæðing og stóð sig með ágætum, en varð að sætta sig við tap á stigum. Kristján Orri landaði þriðja íslenska sigrinum og Gunnar Kolli gulltryggði kvöldið fyrir Ísland með yfirburðasigri á sínum andstæðing. Mótherji Gunnars Þórs Þórssonar náði ekki vigt og tapaði því sjálfkrafa án þess að keppt væri (hann var næstum því 9 kg þyngri en Gunni).

Hér eru úrslitin (sigurvegarar eru feitletraðir):

Baldur Fannar Arnarson vs Christian Doest (BK Tårnet 74)
Adam Freyr Daðason vs Fahim Safi (Nykøbing BK)
Daníel Hauksson vs Adnan Yassin (Karlebo BK)
Ásdís Rósa Gunnarsdóttir vs Nína Jørgensen (Lyngby BK)
Kristján Orri Arnarsson vs Mark Olsen (Team Bredahl)
Gunnar Kolbeinn Kristinsson vs Brian Johansen (Team Bredahl)
Gunnar Þór Þórsson vs Landry Kore (Team Bredahl)

Ásdís að keppa við Nínu Jørgensen
Ásdís að keppa við Nínu Jørgensen

Ásdís Rósa ber hróður HFR víða!

Ástþór og Ásdís
Ásdís ásamt kálfi Mílós (Ástþóri Sindra Baldurssyni) eftir góða æfingu í vikunni

Ásdís Rósa Gunnarsdóttir mætir Berglindi Frances Aclipen í annað sinn í keppni í Hafnarfirði nú um næstu helgi. Því næst verður haldið til Danmerkur þar sem hún tekur þátt í Bredahl Galashow í Holbæk þann 20. nóvember. Þegar heim er komið tekur við mót í Reykjavík þann 28. nóvember og eftir áramót stefnir Ásdís svo á tveggja mánaða æfingabúðir hjá Freddie Roach og félögum í Wild Card Gym í Bandaríkjunum!

Hvernig á að vefja sig?

Hvernig á að vefja sig? Það er engin ein leið til þess að vefja sig, en hér eru leiðbeiningar að grundvallaraðferð sem við mælum með sem upphafspunkti í því að læra að vefja hendurnar. Það mikilvægasta er – óháð aðferðinni – að vernda úlnliðinn og beinin í handarbakinu. Þótt það sé mikilvægt að vernda hnúana hefur það ekki sama vægi. Leiðbeiningarnar eru á íslensku. Smellið á myndina til þess að ná í skjalið.

Duglegir strákar í krakka- og unglingahóp HFR

Sigurður Rafn, Guðmundur, Reynir, Aron Ingi, Héðinn, Sigurður Grétar og Hlynur Þór ásamt Gunnari Davíð þjálfara
Sigurður Rafn, Guðmundur, Reynir, Aron Ingi, Héðinn Máni, Sigurður Grétar og Hlynur Þór ásamt Gunnari Davíð þjálfara

Starfið gengur vel í krakka- og unglingahóp HFR það sem af er haustönn. Strákarnir stefna á keppni á sínu fyrsta diplomamóti fyrir áramót og æfa af miklum móð þrisvar í viku.

Hér er stutt útskýring á diplomahnefaleikum:

Diplomahnefaleikar er afbrigði hnefaleika sem þar sem iðkendur keppa í því að sýna tæknilegri getu.

Markmiðið er kynna yngstu keppendur fyrir íþróttinni og jafnframt stuðla að því að komandi kynslóðir verði samkeppnishæfar í áhugamannahnefaleikum á alþjóðagrundvelli í framtíðinni.

Diplomahnefaleikar eru keppni í hnefaleikatækni. Þeir eru mildari útgáfa af eiginlegum keppnishnefaleikum sem undirbýr yngri keppendur samkvæmt skýrum kröfum fyrir frekari keppni. Í diplomahnefaleikum vottast tæknileg kunnátta hnefaleikamannsins, ekki hversu fast þeir slá eða hversu líkamlega sterkir þeir eru. Það er verkefni og ábyrgð hringdómarans að sjá til þess að þessu sé fylgt. Það er svo hlutverk hornamannsins/þjálfarans að aðstoða hringdómarann í þessu verkefni. Stigadómarar gefa stig fyrir jafnvægi, vörn, fótaburð og rétt útfærð högg.

Reglurnar eru þannig gerðar að þátttakendur í keppnunum eru að gæta sinna eigin hagsmuna ef þeir leyfa leikjunum aldrei að fara út í slagsmál og eiga því þegar á byrjendastigi að geta gert greinarmun á hnefaleikum og ofbeldi. Ofbeldi er verkfæri heigulsins gegn vilja þeirra sem minna mega sín og hnefaleikahringurinn er ekki staður fyrir slíkt.

Úrslit í diplomahnefaleikum skulu aldrei ráðast af harðri snertingu eða með ódrengilegri framkomu. Diplomahnefaleikar eru keppni í tækni.