Flokkaskipt greinasafn: Myndir

Lucia Rijker

Ásdís og Lucia Rijker
Ásdís og Lucia Rijker

Ásdís var svo heppin að fá að hitta bestu hnefaleikakonu sögunnar, Luciu Rijker, í Wild Card Gym í gær, en þjálfari hennar var og er einmitt sjálfur Freddie Roach. Lucia er ósigruð í atvinnuhnefaleikum og muay thai og er goðsögn í heimi bardagaíþróttanna. Þegar hún var upp á sitt besta neituðu stærstu stjörnur kvennahnefaleikanna, Christy Martin og Laila Ali (sem er þó mun hærri og þyngri), að mæta henni í hringnum. Þessi öflugi frumkvöðull hefur veitt fjölda upprennandi hnefaleikakvenna innblástur gegnum tíðina og er Ásdís engin undantekning.

Hér eru nokkur brot úr heimildamynd sem gerð var árið 1999 til þess að vekja athygli á baráttu hnefaleikakvenna fyrir sinni íþrótt þar sem Lucia er tekin fyrir, og svo viðtal við Luciu þegar í ljós kom fyrir nokkrum mánuðum að loks yrði keppt í kvennaflokki á Ólympíuleikunum.

Ásdís og Kolli farin til USA

Ásdís og Kolli á flugvellinum
Ásdís og Kolli á flugvellinum

Ásdís Rósa Gunnarsdóttir (HFR) lagði í dag af stað í tveggja mánaða æfingaferð til Bandaríkjanna þar sem hún verður undir handleiðslu Freddie Roach og félaga í Wild Card Gym. Með henni í för er Gunnar Kolbeinn Kristinsson (HFÆ).

Hægt verður að fylgjast með Ásdísi og Kolla á bloggsíðu þeirra um ferðina: Smellið hér.

Hafsteinn Smári og Ásdís Rósa Hnefaleikafólk ársins 2009!

Ásdís Rósa Gunnarsdóttir og Hafsteinn Smári Óskarsson
Ásdís Rósa Gunnarsdóttir og Hafsteinn Smári Óskarsson

Þau Hafsteinn Smári Óskarsson og Ásdís Rósa Gunnarsdóttir, bæði frá Hnefaleikafélagi Reykjaness (HFR), voru í kvöld valin Hnefaleikamaður og Hnefaleikakona ársins 2009 í hófi ÍSÍ á Grand Hótel í Reykjavík.

HNEFALEIKAMAÐUR ÁRSINS 2009

Hafsteinn Smári Óskarsson

Hafsteinn Smári hefur verið ósigrandi í hringnum síðan haustið 2008. Frá því um áramótin síðustu hefur hann mætt og unnið sigur á öllum íslenskum keppinautum sínum í fjórum þyngdarflokkum, sem er óheyrt.

Á Íslandsmótinu sigraði hann Elías Shamsudin frá Hnefaleikafélaginu ÆSIR (HFÆ) og varð Íslandsmeistari í léttvigt (60 kg). Hann sigraði einnig besta léttveltivigtarboxara landsins (64 kg), Adam Frey Daðason frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar (HFH), Gunnar Georg Gray (HFÆ), Íslandsmeistarann í veltivigt (69 kg) tvívegis og nú síðast besta millivigtarboxarann (75 kg), Kristján Orra Arnarsson (HFH) þrátt fyrir að á þeim væri um 10 kg þyngdarmunur. HFH tók ekki þátt á Íslandsmótinu þetta árið og er það einungis af þeim sökum sem þeir Adam og Kristján eru ekki Íslandsmeistarar.

Hafsteinn vann einnig yfirburðasigur á Vilhjálmi Gunnar Péturssyni (HFÆ) í 69 kg flokki, þrátt fyrir nokkurn þyngdarmun og 13 ára aldursmun (Hafsteinn er 15 ára). Það er ólíklegt að það verði nokkurn tímann leikið eftir honum.

Hafsteinn er íþróttamaður fram í fingurgóma og hefur aldrei hopað undan nokkurri áskorun. Af þessum sökum er hann útnefndur Hnefaleikamaður ársins 2009.

HNEFALEIKAKONA ÁRSINS 2009

Ásdís Rósa Gunnarsdóttir

Það eru fáar íslenskar hnefaleikakonur sem hafa stigið eins oft í hringinn á einu ári og Ásdís Rósa gerði á árinu. Til þess hefur hún oftast nær þurft að berjast utan síns eiginlega þyngdarflokks, fjaðurvigtar (57 kg).

Í janúar mætti hún í öðrum bardaga sínum á ævinni þriðju bestu léttvigtarkonu (60 kg) Danmerkur, Maríu Jacobsen. Ásdís fór allar loturnar og stóð sig bara nokkuð bærilega miðað við töluverðan reynslu- og þyngdarmun. Hún nýtti reynsluna og stóð sig fantavel þegar hún mætti loksins einhverjum í sínum eigin þyngdarflokki, Lindu Dögg Guðmundsdóttur (HFÆ) og hafði betur á stigum á móti í mars. Þær
mættust svo aftur á Íslandsmótinu mánuði síðar og í þetta sinn vann Ásdís fullnaðarsigur þegar viðureignin var stöðvuð í annarri lotu.

Ekki gekk að finna Ásdísi andstæðing á Ljósanótt, þannig að hún bætti það upp með því að keppa fjórum sinnum á sex vikum í október og nóvember! Hún tók þríleik við veltivigtarkonuna (66 kg) Berglindi Frances Aclipen (HFÆ) og voru allir leikirnir jafnir og skemmtilegir. Ásdís sigraði þann fyrsta, en Berglind þann annan og þriðja líka, þótt sá síðasti hefði líkast til getað farið hvernig sem er. Á milli stríðanna við Berglindi fór hún til Danmerkur og mætti léttvigtarkonunni (60 kg) Nínu Jørgensen. Sú hefur átta ára reynslu af hnefaleikum og vann sigur á stigum.

Ásdísi Rósu er kjörin Hnefaleikakona ársins 2009 á þeim forsendum að hún er þrátt fyrir allt ósigruð í sínum þyngdarflokk, varð Íslandsmeistari á árinu, hefur stigið í hringinn oftar en flestir keppendur af báðum kynjum og er frábær íþróttamaður sem hefur sýnt mikinn metnað og framfarir á árinu öllu frá upphafi til enda.

Ásdís stefnir á þátttöku á Ólympíuleikunum í London 2012 og ætlar næstu tvo mánuðina út til Bandaríkjanna í æfingabúðir hjá Freddie Roach og félögum í Wild Card Gym.

Hnefaleikafélag Reykjaness óskar Hafsteini og Ásdísi innilega til hamingju með titlana og hlakkar til stærri og enn betri hluta á nýju ári!

Frábær uppskera á árinu!

Íslandsmeistarar 2009 (v-h): Björn Snævar Björnsson, Ásdís Rósa Gunnarsdóttir, Árni Ísaksson og Hafsteinn Smári Óskarsson. Á myndina vantar Daníel Þórðarson.
Íslandsmeistarar 2009 (v-h): Björn Snævar Björnsson, Ásdís Rósa Gunnarsdóttir, Árni Ísaksson og Hafsteinn Smári Óskarsson. Á myndina vantar Daníel Þórðarson.

Íþróttabandalag Reykjanesbæjar (ÍRB), í samstarfi við Reykjanesbæ, heiðraði í dag alla Íslandsmeistara aðildarfélaga sinna. Þau Árni Ísaksson, Ásdís Rósa Gunnarsdóttir, Björn Snævar Björnsson, Daníel Þórðarson og Hafsteinn Smári Óskarsson hlutu öll viðurkenningar. Hafsteinn Smári var auk þess valinn Hnefaleikamaður Reykjanesbæjar og fékk bikar að launum.

Þau Hafsteinn Smári og Ásdís Rósa eru einnig tilnefnd til Hnefaleikamanns og Hnefaleikakonu ársins 2009 á landsvísu. ÍSÍ mun kynna val sérsambanda og séríþróttanefnda á Íþróttafólki ársins 2009 í hverri grein og heiðra við athöfn á Grand Hótel í Reykjavík þriðjudaginn 5. janúar 2010.