Allar færslur eftir hfrboxing

HFR kom, sá og sigraði á ÍM 2009

Sigurlið HFR
Sigurlið HFR

Úrslitakvöld Íslandsmeistaramótsins í hnefaleikum fór fram í Reykjanesbæ á laugardaginn var og keppt var um níu Íslandsmeistaratitla. Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) kom, sá og sigraði og sat eftir með fimm Íslandsmeistara.

Það voru þau Hafsteinn Smári Óskarsson, Ásdís Rósa Gunnarsdóttir, Björn Snævar Björnsson, Daníel Þórðarson og Árni Ísaksson sem hömpuðu titlunum og auk þess fengu þeir Daníel og Björn sérstakar viðurkenningar. Daníel var valinn hnefaleikamaður kvöldsins og Björn sá efnilegasti og voru þeir báðir vel að því komnir.

Þetta er hreint ótrúlega góð uppskera fyrir félagið sem hefur verið framúrskarandi í allan vetur.

Íslandsmeistarar kvöldsins

Léttvigt drengja (60 kg)
Hafsteinn Smári Óskarsson (HFR)

Veltivigt drengja (69 kg)
Gunnar Georg Gray (HFÆ)

Fjaðurvigt kvenna (57 kg)
Ásdís Rósa Gunnarsdóttir (HFR)

Léttveltivigt (64 kg)
Gunnar Þór Þórsson (HR)

Veltivigt (69 kg)
Björn Snævar Björnsson (HFR) – efnilegasti hnefaleikamaðurinn

Millivigt (75 kg)
Daníel Þórðarson (HFR) – hnefaleikamaður kvöldsins

Léttþungavigt (81 kg)
Árni Ísaksson (HFR)

Þungavigt (91 kg)
Gunnar Kolbeinn Kristinsson (HFÆ)

Yfirþungavigt (+91 kg)
Lárus Mikael Daníelsson (HFÍ)

HFR vinnur fjórar af fjórum viðureignum

HFR

HFR sigraði alla fjóra leiki sína á móti í Reykjanesbæ nú um helgina. Þrír danskir gestir flugu allir heim með tap í bókinni eftir óblíðar kveðjur frá íslenskum andstæðingum sínum. Líkast til er það í fyrsta skipti sem erlent lið fer sigurlaust af klakanum.

Hér eru úrslitin (sigurvegarar eru feitletraðir):

Léttvigt (60 kg)
Daníel Hauksson (HFH) vs Hinrik R. Helgason (HFÆ)

Fjaðurvigt (57 kg)
Linda Dögg Guðmundsdóttir (HFÆ) vs Ásdís Rósa Gunnarsdóttir (HFR)

Millivigt (75 kg)
Matthías Arnarson
(HFÆ) vs Jón Pétur Vágseið (HR)

Veltivigt (69 kg)
Gunnar Gray (HFÆ) vs Pétur Ásgeirsson (HFR)

Millivigt (75 kg)
Jafet Örn Þorsteinsson (HFÆ) vs Sæþór Ólafur Pétursson (HFV)

Léttþungavigt (81 kg)
Mike Andreasen (Team Denmark) vs Mustafa Mikael Jobi (HFÆ)

Léttþungavigt (81 kg)
Steinar Thors (HR) vs Gunnar Davíð Gunnarsson (HFR)

Yfirþungavigt (91+kg)
Ricky Paustian (Team Denmark) vs Gunnar Kolli Kristinsson (HFÆ)

Veltivigt (69 kg)
Rasmus Borggren (Team Denmark) vs Björn Snævar Björnsson (HFR)

Pakkfullt hús á keppni við Dani

Það var hreint ótrúleg stemning í gömlu sundhöllinni í Keflavík þegar íslensku hnefaleikafélögin tóku á móti sjö dönskum klúbbum í þrettán viðureignum þeirra á milli síðastliðið laugardagskvöld. Húsið var pakkfullt og áhorfendur sýndu hreint frábæran stuðning við sína menn.

Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) tefldi fram átta keppendum og höfðu þeir betur í fimm skipti. Hafsteinn Smári Óskarsson vann nokkuð öruggan sigur á Gunnari Gray frá Hnefaleikafélaginu ÆSIR (HFÆ), Ásdís Rósa Gunnarsdóttir tapaði fyrir þriðju bestu hnefaleikakonu Dana, Maríu Jacobsen en Gunnar Davíð Gunnarsson bróðir Ásdísar reif upp stemninguna með frábærri frumraun sinni í hringnum gegn Axel Loga Þorsteinssyni (HFÆ). Hafði hann yfirburði allan tímann og uppskar sigur að lokum. Hinn snarpi og snaggaralegi Ástþór Sindri Baldursson mætti jafnoka sínum í Iayd Snounou frá SIK-Fight en fann ekki Akkilesarhæl þess danska fyrr en það var orðið of seint og varð að sætta sig við ósigur í þetta skiptið. Þá barðist Tom Wolbers við Danann Flemming Rasmussen, en átti ekki erindi sem erfiði og handklæðinu var hent inn í lok annarar lotu.

Þeir gleyma því seint sem sáu Njarðvíkinginn Pétur „Smiley” Ásgeirsson mæta Dananum Andreas Lynggard. Hann sýndi það og sannaði að suðurnesjamenn eru ekki búnir til úr pappakössum! Lynggard þessi var eldri, reyndari, þyngri og hærri en Pétur, sem hræddist þó ekki þennan danska úlf. Fyrst byrjaði hann á því að sýna einhverja þá ótrúlegustu varnartakta sem sést hafa í íslenskum hnefaleikahring, lét andstæðing sinn slá 6-7 vindhögg í röð hvað eftir annað og sló hann svo í gólfið með hægri hendi. Daninn stóð upp með skottið milli lappanna og lauk bardaganum með sigri Péturs, sem var síðar valinn boxari kvöldsins.

Björn Snævar Björnsson mætti Lau Johansen, sem lét frá sér allar hugmyndir um sigur þegar hann fann hversu mikill kraftur var í Birninum. Johansen, sem er mjög reyndur, var eins og vel sleipur áll og virtist hafa meiri áhuga á því að glíma við Björn en boxa við hann. Sá síðarnefndi lét þó engan bilbug á sér finna og gaf þeim danska ekki stundarfrið enda vann hann verðskuldaðan sigur að lokum.

Þeir Adam Freyr Daðason frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar og Gunnar Kolbeinn Kristinsson (HFÆ) stóðu sig vel, en voru ekki alveg nógu sannfærandi til þess að vinna sigur. Matthías Arnarsson (HFÆ) tókst það hins vegar og sigraði Danann Karar Al-Yaseri í þrusuviðureign.

Í síðasta bardaga kvöldsins mætti Árni „úr járni” Ísaksson í sinni fyrstu hnefaleikaviðureign þriðja besta boxara dana í 75 kg flokki, Filip Jörgensen frá HSK. Árni eyddi tímanum ekki í vitleysu heldur tætti Jörgensen í sundur högg fyrir högg frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu. Áætlunin hjá Jörgensen var sú að láta Árna þreyta sig á því að slá í hanskana hjá sér en reyndist það hið mesta feigðarflan, því Árni verður aldrei þreyttur! Þegar líða fór á bardagann sást það klárlega á fasi Jörgensen að hann hafði nú fyllilega gert sér grein fyrir því að hann væri ekki að í hringnum með einhverjum manni, heldur náttúruafli! Daninn skoraði ágætlega þegar hann þorði að slá, en þau fáu stig sem hann skoraði drukknuðu í höggaflóðinu hans Árna, sem tók sigrinum fálega og lofaði að gera enn betur næst!

Vonir eru uppi um að Jörgensen fái annað færi á Árna og komi hingað aftur og keppi ásamt löndum sínum í Reykjanesbæ þann 7. mars næstkomandi.

Hnefaleikafélag Reykjaness vill þakka bæði Kaskó og Café Duus fyrir sýndan stuðning.

HFRingar sigurreifir um helgina

Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) hélt um síðustu helgi keppni í aðstöðu sinni í gömlu sundhöllinni í Keflavík og voru skráðir til leiks tuttugu og einn keppandi frá sex félögum. Keppnislið HFR vann sex af sjö viðureignum sínum og er óhætt að segja að það sé sigursælasta félag landsins það sem af er keppnistímabilinu.

Íþróttamaður Sandgerðis, Andri Már Elvarsson (13 ára), keppti tvisvar sama kvöldið og hafði yfirburðasigur í bæði skiptin gegn eldri og þyngri andstæðingum frá Hnefaleikafélagi Akraness (HAK) og Hnefaleikafélaginu ÆSIR (HFÆ). Andstæðingur Ástþórs Sindra Baldurssonar (13 ára) mætti ekki í hringinn og var því sigurinn sjálfgefinn, en þegar ljóst varð að slíkt hið sama myndi henda keppanda frá HFÆ hljóp Ástþór í skarðið þrátt fyrir mikinn aldurs- og þyngdarmun. Þegar yfir lauk voru þeir jafnir á stigum og réðist sigur Ástþórs að lokum á því að hann hafði sýnt betri vörn.

Pétur „Smiley“ Ásgeirsson var í essinu sínu í fyrsta bardaga eftir hlé og var bardaginn stoppaður í þriðju lotu eftir að þung skrokkhögg Péturs höfðu tekið allt púðrið úr andstæðingi hans, Arnóri Má Grímssyni (HAK).

Keppnismaðurinn mikli, Vikar Karl Sigurjónsson, reyndi í annað sinn að vinna bug á þungavigtarmanninum Gunnari Kolla Kristinssyni (HFÆ) en átti ekki erindi sem erfiði. Þótt Vikar hafi barist mun betur en í fyrri rimmu þeirra félaga í september reyndist erfitt að yfirstíga mikinn hæðar- og þyngdarmun auk þess sem Gunnar Kolli barðist einnig betur en síðast. Að fjórum lotum loknum var úrskurðurinn einróma gestinum í vil.

Tveir efnilegustu hnefaleikamenn landsins, þeir Hafsteinn Smári Óskarsson (HFR) og Adam Freyr Daðason frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar (HFH), mættust í annað sinn á þrem vikum í hnífjöfnum bardaga. Þessir piltar fara með hanska eins og Paganini fór með Stradivaríus fiðlu og var hrein unun fyrir sanna hnefaleikaunnendur að horfa á þá leika listir sínar. Adam lét Hafstein ekki koma sér á óvart í þetta sinn og barðist mjög skynsamlega og tímasetti gagnsóknir sínar vel. Hafsteinn skoraði hins vegar reglulegar og vann það honum að lokum 2-1 sigur.

Í lokaviðureign kvöldsins mætti Daníel Þórðarson írska skriðdrekanum Kieran Treacy frá Bracken BC og varð útkoman sannarlega eftirminnileg. Fyrsta lota var nokkuð jöfn og náði Írinn oft að klemma Daníel á reipunum og velgja honum undir uggum með skrokkhöggahríðum. Í annarri lotu þreif Keflvíkingurinn knái taumana úr höndum Treacy og var við stjórnvölinn það sem eftir var. Hann snéri sér snarlega af reipunum í hvert skipti sem hætta var á því að Írinn klófesti hann og fór að smellhitta æ oftar með hægra upphöggi. Treacy hætti þó aldrei að pressa og var sannarlega ekki kominn til þess að leggja árar í bát þótt að á brattann væri að sækja. Hann skoraði áfram vel með skrokkhöggum og var Daníel orðinn mjög móður í fjórðu og síðustu lotu þótt hann héldi áfram að refsa andstæðing sínum í hvert skipti sem hann dirfðist að slá frá sér. Allir dómarar voru sammála um úrslitin og Daníel stóð uppi sem sigurvegari jafnframt því að hljóta verðlaun sem besti hnefaleikamaður kvöldsins.

Þetta var síðasta hnefaleikamótið fyrir áramót en ætlunin er að bjóða heim stóru dönsku liði í byrjun febrúar í risakeppni í Reykjanesbæ.