Allar færslur eftir hfrboxing

HFR í Bandaríkjunum

Nú á dögum fóru þau Margrét Guðrún Svavarsdóttir og Björn Björnsson til USA að keppa í Roy Jones Jr. Tournament. Þetta er í fyrsta skipti sem að íslendingar keppa á þessu árlega stórmóti, sem er haldið í Las Vegas til heiðurs hnefaleikagoðsögninni Roy Jones Jr. Björn sigraði Rússneskan keppanda í bardaga sínum með flottum töktum í 75kg flokki. Björn, sem er ríkjandi Íslandsmeistari, hlaut síðan ósigur gegn ríkjandi Bandaríkjameistara, Austin Williams, eftir erfiða viðureign. Íslendingurinn fékk þó mikið lof fyrir frammistöðu sína frá Williams og Roy Jones sjálfum sem fylgdist með bardaganum.

 

Margrét keppti gegn Golden Gloves sigurvegara í úrslitum á mótinu  í 75kg flokki kvenna. Margrét nær að slá niður andstæðing sinn í fyrstu lotu, sem kemur sterkt að henni. Þrátt fyrir mikla baráttu þá hlýtur okkar stelpa ósigur að lokum.

Íslensku keppendurnir okkar æfðu og kepptu fyrir hönd HFR með hinu heimsfræga Johnny Tocco’s Ringside Gym í Las Vegas. Hér fyrir neðan má sjá þau í undirbúning fyrir bardaga sína.

 

 

 

Björn Íslandsmeistari 2018

Um helgina var haldið Íslandsmót í aðstöðu HFR í Reykjanesbæ. Þar kepptu Björn Björnsson og Magnús Marcin fyrir hönd Reykjanesbæjar. Björn átti sigur í báðum sínum viðureignum og var krýndur Íslandsmeistari í -75kg flokki karla. Magnús hlaut silfur í -81kg flokki eftir mjög jafnan úrslitabardaga.

Mynd að ofan: Gunnar Jónatansson

Hér er bardagi Björns frá undanúrslitum á Laugardeginum gegn Kristni Godfrey úr ÆSIR.

Margrét hnefaleikakona ársins

Margrét er 19 ára og hefur æft hnefaleika frá árinu 2012. Margrét hóf feril sinn í diplomahnefaleikum og lauk öllum þrepum diplomastigans á tveimur árum. Hún hefur unnið til gullverðlauna á erlendum stórmótum, þar á meðal á Hvidovre Box Cup 2014. Á árinu hefur Margrét unnið allar innlendar viðureignir sínar, þar á meðal er hún núverandi Íslandsmeistari í -75kg flokki kvenna. Á Norðurlandameistaramótinu í Danmörku í ár fékk hún silfrið í sínum flokki eftir jafnan úrslitaleik. Margrét er fyrirmyndar íþróttakona, innan og utan vallar. Hún sinnir sjálfboðaliðastörfum fyrir hnefaleikasambandið og sækir námskeið á þeirra vegum. Hún er fyrirmynd fyrir ungar konur í hnefaleikum og námi. Þessari íþrótt sinnir hún ásamt Háskólanámi í efnafræði. Þetta ár hefur sýnt fram á að hún fer af fullri orku í allt sem hún vil taka sér fyrir hendur.

 

 

Benóný með gull um helgina

Benóný Einar Færseth hlaut gullmerki á boxmóti í Hafnarfirði sem fram fór þann 2. desember síðastliðinn, en hann keppir fyrir Hnefaleikafélag Reykjaness.
Gullmerkið er hæsta viðurkenning sem gefin er fyrir diploma hnefaleika. Benóný hefur stefnt að þessu lengi en hann á ekki langt að sækja hæfileikana þar sem pabbi hans, Guðjón Vilhelm, er einn af helstu frumkvöðlum boxhreyfingarinnar á Íslandi. „Ég ætlaðist aldrei til þess að Benóný myndi sækja í hnefaleika, hann ákvað það alveg upp á eigin spýtur,“ segir Guðjón, faðir hans.

Hin ellefu ára gamla Kara Valgarðsdóttir hlaut bronsmerkið eftir þrjár lotur og er núna að safna upp í silfurmerki. Hin fjórtán ára Lovísa Sveinsdóttir er upprennandi boxari og náði góðum árangri um helgina, en hún byrjaði að æfa fyrir þremur mánuðum síðan og er langt komin að safna upp í bronsmerki.

Tómas Ingólfsson sýndi einnig gríðarlega flotta takta en drengurinn stefnir hart á að fá silfurmerkið sitt snemma á næsta ári.

unnamed (1)
Björn Björnsson (þjálfari), Benóný og Valgarður Magnússon (þjálfari)
24177187_10159652049520542_9151525707617794631_n
Lovísa Sveinsdóttir

HFR með 4 gull á stærsta Boxkvöldi til þessa

Það má segja með sönnu að það hafi verið gríðarleg stemning á Boxkvöldi Ljósanætur þessa árs. Um er að ræða stærstu boxkeppni landsins í mörg ár. Alls fóru fram 12 bardagar þetta kvöld og tóku öll hnefaleikafélög landsins þátt.

Fyrstur í hringinn hjá HFR var Björn Snævar Björnsson, yfirþjálfari. Eftir tveggja ára hlé steig boxþjálfari suðurnesja inn í hringinn og upp í -81kg flokk. Björn hefur verið stóran part af sumrinu í bardaga borginni Las Vegas þar sem hann þjálfaði og æfði með atvinnumönnum. Björn Sýndi takta sem gerðu hann að Íslandsmeistara í gömlu tíð en eftir mikla spennu bar hann sigur úr býtum. Björn keppti á móti Þorsteini Helga Sigurðssyni, sem æfir hjá Hnefaleikafélaginu ÆSIR er gríðarlega efnilegur piltur og var valinn hnefaleikamaður ársins 2016.

Vikar Sigurjónsson, einn reynslumesti boxari suðurnesja, fer gegn Eiríki Sigurðssyni hjá HR-Mjölni. Vikar sýndi gríðarlegan þrótt í bardaga sínum og með góðu plani leggur hann andstæðing sinn niður með þungri hægri. Bardaginn fer allar þrjár loturnar þar sem Vikar átti öruggan sigur.

Næstur hjá HFR var Magnús Marcin en hann er einnig að koma eftir langt hlé. Marcin keppti við Elmar frá Hnefaleikafélagi Akureyrar. Elmar, sem barðist úr southpaw stöðu, sýndi hvað hann er reyndur og klár hnefaleikamaður. Þó náði tækni og höggþungi pólska tröllsins úr Keflavík að yfirbuga Akureyringinn. Á einum tímapunkti gaf Marcin slíkt högg í kviðinn að hanski andstæðings snerti gólf. Marcin átti þarna öruggan sigur eftir þrjár lotur.

Íslandsmeistari okkar Margrét G. Svavarsdóttir steig inn á móti hörkutólinu Kristínu Sif frá HR-Mjölni. Bardaginn fór fram og aftur, þó Margrét stjórnaði oft miðju hringsins þá sótti Kristín grimmt allan bardagann. Þær stelpur börðust hart út í gegn en að lokum tryggði Margrét fjórða sigur hjá HFR þetta kvöld.

Helgi „Flex“ Guðmundsson, Tae Kwon Do og BJJ þjálfari með fleiru, klárar kvöldið með grjóthörðum bardaga við ríkjandi Íslandsmeistara í -81kg flokki karla. Helgi var léttur á fæti, heldur höði og lendir þónokkrum höggum á andstæðing sinn. En undir lok þá tapar hann fyrir ríkjandi meistaranum en þó ekki án þess að tryggja virðingu meðal áheyrenda. Björn Lúkas bardagamaður var þar í horninu ásamt Birni þjálfara, en Björn Lúkas sló eftirminnilega í gegn fyrir tvem árum á ljósanótt þegar hann sigraði sinn fyrsta bardaga fyrir HFR með rothöggi í annarri lotu.

Alls fóru fram 12 bardagar þetta kvöld og tóku öll hnefaleikafélög landsins og enginn annar en white boy of the year, KILO, sem tróð upp í hléum. Ekki voru áhorfendur að verri endanum en í hópnum voru meðal annars Sunna „Tsunami“ Davíðsdóttir MMA bardagakona og Guðjón Vilhelm, meðstofnandi HFR. Kynnir spyr Sunnu hvað henni fannst um kvöldið en þá svarar hún á hæl: „mér fannst þetta geggjað.“ Mikið erum við sammála þar.

Pálmi Sigurðsson fór hreinlega á kostum sem kynnir kvöldsins en áhrifaríkar kynningar hans á keppendum slóu í gegn.

Ef þið viljið nálgast myndir í hárri upplausn, sendið á hfrboxing@boxing.isLjósmyndari: Tryggvi Rúnarsson

Posted by Hnefaleikafélag Reykjaness on Saturday, September 2, 2017

Boxkvöld ljósanótt

Föstudaginn 1. september mun HFR halda upp á Ljósanótt með öllum helstu hnefaleikafélögum landsins. Hið árlega Boxkvöld verður haldið í Boxhöll bæjarins, gamla sundhöllin við framnesveg. Um er að ræða bardaga án höfuðbúnaðar, í stíl við íþróttina í dag.

Fyrir hönd bæjarins keppa Margrét Guðrún Svavarsdóttir, Helgi Rafn Guðmundsson, Magnús Marcin Jarzębowicz og Björn Björnsson.

Ekki missa af stærsta boxviðburði ársins.

facebook viðburður

Skráningar eru byrjaðar fyrir haustönn

Aðalfundur HFR

Aðalfundur Hnefaleikafélags Reykjaness verður haldinn Sunnudaginn 14. Maí kl. 20:00 í aðstöðu félagsins við Framnesveg 9.

Dagskrá:
1.     Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2.     Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins.
3.     Rekstrar- og efnahagsreikningar fyrir árið 2016.
4.     Starfs- og fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
5.     Kosning formanns.
6.     Kosning annarra stjórnarmanna.
7.     Kosning fulltrúa og varafulltrúa á aðalfund félagsins.
8.     Æfingargjöld ákveðin.
9.     Önnur mál.