Á heimsins stærsta boxmóti kvenna

Þrjár stelpur frá Hnefaleikafélagi Reykjaness keppa í Svíþjóð í hnefaleikum um helgina. Stelpurnar keppa í hinu árlega Golden Girl boxing cup en það mót er einungis ætlað konum í íþróttinni. Hildur Ósk Indriðadóttir (36) keppir sinn fyrsta bardaga á árinu en hún fékk eftirminnilega silfur á Íslandsmótinu 2019. Margrét Guðrún Svavarsdóttir (21) er að hefja göngu sína að nýju en hún var íslandsmeistari og hnefaleikakona ársins 2017. Kara Sif Valgarðsdóttir (14) er að keppa sinn fyrsta bardaga en hún er jafnframt yngsta íslenska stelpa sem keppir í ólympískum hnefaleikum. Kara hefur æft fjölda ára í íþróttinni og stefnir hátt.