HFR með sex gull í Hafnarfirði

HFR

Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) hélt uppteknum hætti sem af er keppnistímabilinu og sópaði að sér gullverðlaunum á móti í Hafnarfirði um síðustu helgi. Mótið hélt Hnefaleikafélagið ÆSIR (HFÆ) og var tuttugu og einn keppandi skráður til leiks, þar af sex frá HFR.

Þeir félagar Ástþór Sindri Baldursson og Andri Már Elvarsson — sem báðir eru þrettán ára gamlir — kepptu í diplomaflokki og unnu sínar viðureignir örugglega. Það vakti athygli að Ástþór Sindri keppti tvisvar sinnum um kvöldið og Andri Már var valinn besti diplomaboxari keppninnar. Báðir sigruðu þeir andstæðinga sem voru árinu eldri og fjórum þyngdarflokkum ofar.

Stuðboltinn Pétur Ásgeirsson hafði betur í æsispennandi slag gegn Elíasi Shamsudin (HFÆ) og Eiður Örn Guðjónsson vann yfirburðasigur á Arnari Frey Gunnarssyni frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar (HFH) eftir örðuga fyrstu lotu.

Þrátt fyrir að hafa ekki gert alveg nóg til að hljóta sigur sýndi Björn Snævar Björnsson frábæra frammistöðu gegn ríkjandi Íslandsmeistara í léttveltivigt og einum reyndasta keppanda landsins, Gunnari Óla Guðjónssyni frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur. Það mátti vart tæpara standa þegar yfir lauk og var Gunnar Óli heppinn að loturnar voru aðeins þrjár því Birni óx ásmegin eftir því sem á leið.

Í lokaviðureign kvöldsins mætti svo séníið Hafsteinn Smári Óskarsson Adami Frey Daðasyni (HFH) í sannkallaðri flugeldasýningu. Þetta eru tveir af efnilegustu hnefaleikamönnum landsins en það var yfirburðarframmistaða Njarðvíkingsins knáa í annarri lotu annars jafnrar viðureignar sem réði úrslitum. Hafsteinn Smári — sem vann gull á fjölþjóðlegu móti í Danmörku í síðasta mánuði — var svo valinn besti boxari kvöldsins.