Ungir og aldnir boxuðu á Ljósanótt

Björn stóð sig vel í frumraun sinni í hringnum
Björn stóð sig vel í frumraun sinni í hringnum

Hugmyndin hafði verið að fá írskt lið í heimsókn á Ljósanótt en það gekk því miður ekki eftir vegna ófyrirsjáanlegra vandamála hjá Írunum. Því var spýtt í lófana og haldið skemmtilegt kvöld þar sem þemað var „ungur nemur, gamall temur.“ Gömlu kempurnar Þórður „Doddy“ Sævarsson, Daníel Þórðarson og Skúli Steinn Vilbergsson settu upp hanskana á ný og gáfu þeim Hafsteini Smára Óskarssyni, Pétri Ásgeirssyni og Andra Má Elvarssyni sannkallaða eldskírn í hringnum. Þessi ungu djarfmenni voru hvergi bangin og gáfu ekki þumlung eftir. Þegar andstæðingur Baldurs F. Arnarsonar (HFH) forfallaðist ákvað Doddy svo að nýta ferðina almennilega og kenna Baldri sitthvað um hin sælu vísindi. Baldur er tæplega helmingi þyngri en Doddy og tveimur höfuðlengdum stærri og vakti uppákoman mikla kátínu meðal áhorfenda.

Annars steig Björn Snævar Björnsson úr Garðinum sín fyrstu skref í hnefaleikakeppni gegn Frímanni Frímannssyni og stóð sig með afburðum vel þótt hann mætti sætta sig við tap. Slíkt varð einnig hlutskipti Vikars Karls Sigurjónssonar, sem átti í erfiðleikum með hinn risavaxna Gunnar Kolla Kristinsson (HFÆ). Það var ekki mikið á milli þeirra en Gunnar Kolli var einfaldlega duglegri að slá og skora stig, enda þurfti hann ekki að komast í færi til þess.

Keppnin heppnaðist vel miðað við aðstæður en framvegis verður stefnt að því fá Dani hingað ár hvert á Ljósanótt og það verði fastur liður í dagskrá hátíðarinnar.