HFRingar keppa á Írlandi

HFR
(v-h) Óskar S. Jónsson, Ásdís R. Gunnarsdóttir, Eiður Ö. Guðjónsson, Andri M. Elvarsson, Daði Ástþórsson, Ástþór S. Baldursson, Elvar Grétarsson, Hafsteinn S. Óskarsson.

Keppnislið HFR var á faraldsfæti um helgina síðustu og mætti Bracken Boxing Club í Balbriggan á Írlandi. Íslensku keppendurnir voru þeir Andri Már Elvarsson, Ástþór Baldursson, Eiður Örn Guðjónsson og Hafsteinn Smári Óskarsson. Með í för voru Daði Ástþórsson þjálfari, Ásdís Rósa Gunnarsdóttir aðstoðarþjálfari og fararstjórarnir Elvar Grétarsson og Óskar S. Jónsson.

Ástþór steig fyrstur í hringinn með nánast yfirnáttúrulegri ró og barðist vel gegn Ryan Bisset í sýningarbardaga í léttbitmýsvigt sem endaði með jafntefli. Bisset var mjög taugastrekktur og sló mikið en hitti lítið. Ástþór, sem er að safna reynslu í sarpinn, tókst hins vegar ekki að slá nóg, þótt hann hafi verið nákvæmari og varðist vel.

Í léttfluguvigtarbardaga gerði Andri Már allt rétt og skoraði vel með gagnhöggum þegar andstæðingurinn, Ronan Prenty, óð inn með höfuðið á undan. Ef hinn hávaxni Prenty kom of nálægt tætti Andri af snarpri fléttu og lét hann finna fyrir því með upphöggum. Þrátt fyrir allt naut Sandgerðingurinn knái enn ekki náðar dómara þrátt fyrir yfirburðarframmistöðu á útivelli tvö ár í röð.

Næstur var það Hafsteinn Smári sem steig á svið gegn Conor Duffy í fjaðurvigt. Hafsteinn, sem er örvhentur, byrjaði illa og hreyfði sig í ranga átt en stóð þó fullkomlega jafnfætis Duffy þegar þeir skiptust á höggum í miðjum hringnum. Eftir fyrstu lotu aðlagaði Hafsteinn fótaburðinn og hafði nokkra yfirburði það sem eftir leið. Írinn var heppinn að sleppa allar þrjár loturnar þótt hann hafi aldrei hætt að reyna. En því miður var það enn írskur dómur og Duffy var dæmdur sigurinn 2-1.

Léttþungavigtarmaðurinn Eiður Örn skaut andstæðing sínum, Trevor, skelk í bringu og gjörsamlega einokaði bardagann frá A til Ö. Trevor kom varla inn höggi og Eiður hamraði ítrekað á honum með sinni snörpu hægri hendi. Andstæðingurinn reyndi ítrekað að pressa Eið út í horn en Eiður snéri vörn í sókn og snéri sér fimlega úr horninu og lét höggin dynja á Trevor. Dómarinn taldi tvisvar yfir íranum sem slapp naumlega úr klónum á Eiði þegar bjallan glumdi í lok 3. lotu. Ekki einu sinni írsku dómararnir gátu neitað honum sigurinn og Eiður fór með sigur af hólmi.

Allt í allt frábær ferð og frábær árangur hjá strákunum.